
Í tillögu ráðherrans er stefnan að aðstaða á Keflavíkurflugvelli verði stórbætt til að mæta gríðarlegri fjölgun ferðamanna sem um flugvöllinn fara ár hvert. Jafnframt er sagt í greinargerð með áætluninni að það þurfi að stækka flugvöllinn „ef á að anna fleiri farþegum og styðja flugfélögin í að fjölga skiptifarþegum“.
„Við svona mikil uppbyggingaráform sem hafa víðtæk áhrif um allt land ætti að liggja fyrir skýrari stefna frá stjórnvöldum,“ segir Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar. „Með þessari umsögn vorum við að fylgja eftir umræðum sem sköpuðust við vinnu við aðalskipulag Keflavíkurflugvallar fyrir nokkrum misserum. Samgönguáætlun er réttur vettvangur að okkar mati fyrir stefnumótun sem þessa.“

„Flugstefna fyrir Ísland hefur ekki verið mörkuð, né afstaða stjórnvalda um þolmörk Íslands. Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar er tilgreint að eigendastefna verði mótuð fyrir Isavia,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia. „Þá boðaði samgönguráðherra nýverið í svari við fyrirspurn að fyrsta flugstefna Íslands líti dagsins ljós á vordögum 2019. Isavia fagnar því að flug- og eigendastefna verði skilgreind og mörkuð.“
Gert er ráð fyrir að um 2,3 milljónir ferðamanna heimsæki Ísland á næsta ári og að farþegar sem leið eiga um völlinn verði yfir tíu milljónir. Því er talið mikilvægt að stækka flugvöllinn til að taka á móti þeim aukna fjölda farþega sem fljúga milli Evrópu og Bandaríkjanna.