Krossfitmeistarinn Annie Mist Þórisdóttir gekkst undir hjartaaðgerð á mánudag í kjölfar hjartsláttartruflana sem hún hefur glímt við undanfarin fimm til sex ár. Hún segir að vandamálið hafi ekki verið leyst að fullu að þessu sinni en hún verði brátt komin aftur til æfinga.
Annie lauk keppni þrátt fyrir hjartsláttartruflanir á heimsleikunum í Crossfit í ágúst. Í uppfærslu á Instagram-síðu sinni lýsir hún því á ensku hvernig hún hafi þurft að hætta að æfa í kjölfarið. Hún hafi í kjölfarið viljað láta skoða vandamálið til að kanna hvort hægt væri að komast fyrir það.
Í því skyni hafi hún farið í hjartaþræðingu á mánudag. Í ljós hafi komið að vandasamt væri að laga vandann og hún hafi ekki verið tilbúin að taka áhættuna á að láta laga hann að fullu. Annie segist þó bjartsýn.
„Ég er svo þakklát fyrir að ég hafi látið verða af þessu. Þó að það hafi ekki verið lagað að fullu veit ég núna og þetta er ekki eitthvað sem ég þarf að vera hrædd við,“ segir hún.
Nú taki við sjö daga hvíld áður en hún getur hafið æfingar að nýju.

