Svo virðist sem að kólnandi hagkerfi séu víðar en á Íslandi, þar á meðal í Þýskalandi en erlendir fjölmiðlar greina nú frá því að samdráttur mælist nú í þýsku efnahagslífi í fyrsta sinn frá árinu 2015.
Á þriðja ársfjórðungi dróst verg landsframleiðsla í Þýskalandi saman um 0,2 prósent en á öðrum ársfjórðungi var hagvöxtur 0,5 prósent.
Samdráttur hefur ekki verið meiri á þriggja mánaða tímabili í Þýskalandi frá því á fyrsta ársfjórðungi 2013 þegar hann var 0,3 prósent, samkvæmt tölum frá þýsku hagstofunni.
Frá því í júlí og þar til í september dróst útflutningur saman í Þýskalandi á meðan að innflutningur jókst en landið er vel þekkt sem einn stærsti útflytjanda vara og þjónustu í heiminum.
Þýska hagstofan rekur samdráttinn meðal annars til þessa sem og minni einkaneyslu Þjóðverja á meðan fyrirtæki og hið opinbera standa í fjárfestingum.
Þýskaland er stærsta hagkerfi evrusvæðisins og þó að samdráttinn megi meðal annars rekja til tímabundinna aðstæðna eins og nýrrar reglugerðar um útblástur bíla sem hefur áhrif á bílaiðnað landsins, vara hagfræðingar við því að blikur séu á lofti í efnahagslífinu.
„Vandamál sem sköpuðust varðandi útblásturinn höfðu mikil áhrif á bílaframleiðslu, hærra orkuverð þurrkaði algjörlega út launahækkanir fólks og svo má ekki vanmeta minnkandi sjálfstraust hjá þjóðinni vegna heimsmeistarakeppninnar í fótbolta,“ segir Carsten Brzeski, aðalhagfræðingur hollenska bankans ING í Þýskalandi.
Þjóðverjar komust ekki í 16 liða úrslit á HM í Rússlandi í sumar sem hefur varla haft góð áhrif á þýsku þjóðarsálina, sem hefur svo hugsanlega haft áhrif á einkaneyslu fólks.
Samdráttur í þýsku efnahagslífi í fyrsta sinn síðan 2015
