Þúsundir fuglaskoðara flykkjast til Kikinda á hverjum vetri til að virða fyrir sér heimsins stærsta stofn eyrugla.
Bærinn, sem er nærri landamærum Serbíu og Rúmeníu, hefur þó ratað í sviðsljós notenda samfélagsmiðla vegna styttu sem er ætlað að festa Kikinda í sessi sem uglubæinn mikla.
Styttan á að vera af uglu en margir eru þeirrar skoðunar að hún sé mun líkari reðri.
Mótmælendur eru á því að ílangt form leirstyttunnar sé dónalegt og krefjast þess að hún verði fjarlægð.
Fjölmiðlum ytra hefur gengið erfiðlega að fá myndhöggvarann sem gerði styttuna til að tjá sig en hann sagði við héraðsmiðla í síðustu viku að hann væri reiðubúinn til að gera nýja styttu.
Bæjaryfirvöld í Kikinda hafa neitað að tjá sig en Zeljko Bodrozic, ritstjóri bæjarblaðs Kikinda, sagði að halda ætti í styttuna því að hún hefði náð að vekja svo mikla athygli á bænum, sem er ekki lengur bara þekktur fyrir uglur.