De Gea er af mörgum talinn einn allra besti markvörður heims og hefur svo sannarlega staðið fyrir sínu í marki Manchester United undanfarin ár þar sem hann er í guðatölu hjá stuðningsmönnum enska stórveldisins. Kappinn er hins vegar ekki jafn vinsæll í heimalandinu og hann átti ekki góðan leik í 3-2 tapi gegn Króatíu í Þjóðadeildinni á dögunum.
Spænska þjóðin virðist hafa gefist upp á De Gea og er nú kallað eftir því að hinn 37 ára gamli Iker Casillas snúi aftur en hann gaf það nýverið út að hann útilokaði ekki að gefa kost á sér í spænska landsliðið að nýju.
Á heimasíðu spænska fjölmiðilsins AS var sett upp könnun þar sem spurt var hver ætti að standa í marki spænska landsliðsins. Þar fékk gamla brýnið Iker Casillas yfirburðakosningu þar sem rúm 50% voru á því að Spánn þyrfti á endurkomu hans að halda.
Kepa Arrizabalaga, markvörður Chelsea, var skammt á eftir með 40% atkvæða en De Gea var fjórði í röðinni, á eftir Pau Lopez, markverði Real Betis.
Spain fans want Casillas selected ahead of Kepa, Pau, and De Gea https://t.co/xJXHXzcqQT pic.twitter.com/WL1kEZTv8M
— AS English (@English_AS) November 17, 2018