Téður húsráðandi og kona, sem var gestkomandi í húsinu, voru handtekin á vettvangi eldsvoðans við Kirkjuveg í gær. Þau voru yfirheyrð í dag og leidd fyrir dómara síðdegis þar sem farið var fram á vikulangt gæsluvarðhald yfir þeim. Tveir létust í eldsvoðanum, karl og kona sem bæði voru gestkomandi í húsinu.
„Þetta sló mig verulega. Ég er náttúrulega alinn upp á þessum æskuslóðum hér í gamla bænum, á Kirkjuvegi 17 beint á móti þessu húsi, Kirkjuvegi 18,“ sagði Kjartan í samtali við fréttamann Stöðvar 2 á Selfossi í dag.
Kjartan var á leið á bæjarráðsfund þegar honum var gert kunnugt um að eldur hefði kviknað í húsinu, þar sem æskufélagi hans er til heimilis.
„Þannig að ég fór strax á staðinn og frestaði för minni á fundinn,“ sagði Kjartan, og bætti við að aðkoman hafi verið afar slæm þegar hann kom aðvífandi.

Náði hann að segja þér hvað kom fyrir?
„Já, já. Aðeins var það, en ég ætla ekki að hafa það eftir.“
Þá sagði Kjartan að málið væri hið sorglegasta og hvíldi þungt á litla samfélaginu á Selfossi.
„Það var bara mjög sárt að sjá húsið. Og nú er hann heimilislaus en það var auðvitað sýnu sárara að þarna skyldu tvær manneskjur látast, það var náttúrulega enn sorglegra og hugur munn er hjá aðstandendum þeirra. Við erum ekki það stórt samfélag, það slær fólk alltaf þegar svona gerist. Þetta er ákaflega sorglegt.“
Rætt verður frekar við nágranna og viðbragðsaðila í ítarlegri umfjöllun kvöldfrétta Stöðvar 2 um brunann á Selfossi í kvöld. Fréttirnar eru sýndar í opinni dagskrá á samtengdum rásum Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar klukkan 18:30.