Innlent

Óvíst hvort undirritaðir séu sjómenn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stjórn Sjómannafélags Íslands hefur ekki orðið við ákalli á annað hundrað manns sem hafa krafist félagsfundar vegna þeirrar stöðu sem er komin upp í félaginu. Stjórn félagsins kemur saman eftir helgi þar sem skorið verður úr um lögmæti kröfunnar.

Rúmlega 160 einstaklingar settu nafn sitt við undirskriftasöfnunina þar sem þess var krafist að Sjómannafélag Íslands mynda boða til félagsfundar ekki síðar en í dag í ljósi þeirrar „grafalvarlegu stöðu“ sem komin sé upp í félaginu eftir að Heiðveigu Maríu Einarsdóttur var vikið úr Sjómannafélaginu fyrir helgi. Samkvæmt lögum sjómannafélagsins þurfa 100 félagsmenn að óska eftir því að boðað sé til fundar og því mætti ætla að undirskriftarsöfnunin uppfylli þau skilyrði.

Nú er hins vegar ljóst að stjórn Sjómannafélagsins hefur ekki orðið við þessari áskorun. Enginn félagsfundur hefur verið boðaður - þrátt fyrir að svo virðist vera sem að um þriðjungur félagsmanna sjómannafélagsins hafi sett nafn sitt við kröfuna. Að sögn stjórnamanns í félaginu hefur engin formleg ákvörðun verið tekin um framhaldið, enda sé málið ekki jafn einfalt og það lítur út fyrir að vera.

Sjá einnig: Ótti við sósíalíska byltingu leiddi til brottrekstrar Heiðveigar Maríu

Sigurgeir Friðriksson, stjórnarmaður í Sjómannafélaginu, sagði í samtali við fréttastofu í dag að lögmæti kröfunnar sé nefnilega óljóst. Það eigi eftir að ganga úr skugga um að allir þeir sem rituðu nafn sitt við undirskriftasöfnunina séu í raun félagsmenn í Sjómannafélaginu. Því þurfi að bera saman undirskriftalistann við félagatal Sjómannafélagsins áður en formlega verður hægt að boða til félagsfundar.

Hvenær þessi samanburður mun eiga sér stað liggur ekki fyrir en að sögn Arngríms Jónssonar, ritara Sjómannafélagsins, mun stjórn félagsins funda um framhaldið fljótlega eftir helgi.

Að öðru leyti vildu þeir Sigurgeir og Arngrímur ekki ræða við fréttastofu um málið og bentu á formanninn Jónas Garðarsson. Fréttastofa hefur reynt að ná á Jónas með ítrekuðum símhringum og skilaboðum frá því snemma í morgun, en án árangurs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×