Lögreglan á Suðurlandi vinnur áfram að rannsókn bruna sem kom upp í húsi við Kirkjuveg 18 á Selfossi síðastliðinn miðvikudag. Kona og maður voru úrskurðuð í vikulangt gæsluvarðhald vegna brunans en fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að konan hafa lýst yfir kæru þess úrskurðar til Landsréttar.
Í tilkynningunni segir jafnframt að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi og ekki sé unnt að gefa frekari upplýsingar um málið en þær sem koma fram í tilkynningu.
Verið sé að vinna úr gögnum sem aflað hefur verið í samtölum við möguleg vitni, undirbúnar skýrslutökur af sakborningum sem og unnið úr rannsóknargögnum á vettvangi. Fer vinnan fram hjá lögreglunni á Suðurlandi, tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Mannvirkjastofnun og fleiri aðilum eftir því sem við á.
Fram kom fyrir helgi að ekki stæði til að yfirheyra þau grunuðu aftur fyrr en eftir helgi en ekki kemur frma í tilkynningu lögreglu hvort það verði gert strax í dag eða síðar í vikunni. Fólkið er í einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Suðurlands.
