Dómur í héraði féll í apríl í fyrra en aðdragandann má rekja allt aftur til ársins 2010 þegar Seðlabankinn hafði til rannsóknar ætluð brot Samherja á reglum um gjaldeyrismál um skilaskyldu. Þorsteinn Már segir að brugðist verði við niðurstöðu Hæstaréttar á einhvern máta.
„Már eins og aðrir starfsmenn Seðlabankans hafa borið rangar sakargiftir á þónokkuð marga einstaklinga. Þar með talið mig,“ segir Þorsteinn. Hann hefur farið yfir málið með lögmönnum sínum og telur Má hafa gerst sekan um refsiverða háttsemi.
„Það er í sjálfu sér refsivert og að mati lögmanna okkar að það yrði skýr niðurstaða í því máli. Það er að segja að ég held að það sé nokkuð ljóst að Már Guðmundsson er á leiðinni í fangelsi.“
Hann segir það verra að starfsmenn Seðlabankans hafi fengið að starfa óáreittir í skjóli bankaráðs Seðlabankans.
„Þetta er ekkert einsdæmi þetta mál. Við getum til dæmis nefnt Aserta málið og fleiri mál þar sem að menn hafa misbeitt valdi á refsiverðan hátt,“ segir Þorsteinn.
„Núna þarf bankaráð að bera ábyrgð. Auðvitað á Már Guðmundsson að fara úr bankanum. Mér fyndist það ótrúlegt ef að fólk ætli að sitja uppi með mann til að stjórna Seðlabanka íslands sem er á leið í fangelsi.“
Fréttastofa leitaði viðbragða Seðlabankans vegna dóms Hæstaréttar. Samkvæmt upplýsingum bankans er Már Guðmundsson seðlabankastjóri erlendis og ekki brugðist við að svo stöddu.