Lóðirnar, þar sem ný hús eru nú í byggingu, eru flestar við göturnar Hafnarbraut, Vesturvör, Bakkabraut og Bryggjuvör á Kársnesi. Auk þess verða nokkrar nýjar götur lagðar á svæðinu sem munu þjóna aðkomu að nýjum húsum. Á sama tíma munu eldri iðnaðarhús á svæðinu verða rifin í samræmi við aðalskipulag sem gerir ráð fyrir íbúabyggð á svæðinu.
„Þetta nýja hverfi verður spennandi kostur og skemmtileg viðbót á markaðnum. Um er að ræða uppbyggingu í grónu hverfi þar sem hægt er að sækja nánast alla þjónustu í næsta nágrenni ásamt því að stutt er í nýjan Kársnesskóla og fjölgun leikskóla. Íbúðirnar sem munu rísa á svæðinu eru af ýmsum stærðum. Mikil áhersla er lögð á íbúðir sem eru vel skipulagðar, þ.e. góða nýtingu fermetra og fleiri herbergi. Þetta mun verða fallegt hverfi á einum besta stað miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu með nálægð við sjóinn og smábátahöfnina. Auk þess er stutt í útivist með fjölda hjóla-, hlaupa- og göngustíga sem liggja allt um kring í hverfinu,“ segir Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Íslenskri fjárfestingu, sem heldur utan verkefnið fyrir hönd lóðareigenda.
„Þetta er ákaflega spennandi og metnaðarfull uppbygging í grónu og fallegu hverfi í Kópavogi sem við höfum unnið í góðu samstarfi við íbúa. Kópavogsbær leggur mikinn metnað í þetta svæði, bæði hvað varðar skipulag á lóðum sem aðrir eru að byggja upp, og á opnum svæðum sem Kópavogsbær mun byggja upp við höfnina. Þá mun nýja brúin yfir Fossvog bæta tengingar og samgöngur á svæðinu,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi.
Einar segir að mjög góð samvinna hafi verið milli lóðareigenda, byggingaraðila og Kópavogsbæjar um uppbyggingu á nýja svæðinu.
