Innlent

Sakamenn ekki nafngreindir verði fyrirhugað frumvarp að lögum

Sylvía Hall skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Vísir/Hanna
Í drögum að frumvarpi Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra er lagt til að dómar sem varða viðkvæm persónuleg málefni verði ekki birtir og er þar átt við dóma um lögræði, sifjar, erfðir, málefni barna, ofbeldi í nánum samböndum, nálgunarbönn og kynferðisbrot. Þá er lagt til að nafnleyndar sé gætt í dómum og úrskurðum sakamála. 

Frumvarpið er lagt fram eftir mikla umræðu um birtingu dóma á vefnum að því er segir í drögum að frumvarpinu og er þar vísað í persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Markmið og tilgangur frumvarpsins sé að bregðast við þeirri gagnrýni og tryggja að staðinn sé vörður um friðhelgi einkalífs við birtingu dóma. Þó er það meginregla í réttarfari að málsmeðferð sé opinber og segir í frumvarpinu að birting dóma hafi mikilvæga lýðræðislega þýðingu en með frumvarpinu sé leitast við að takmarka aðgengi að persónuupplýsingum við birtingu dóma.

„Þótt augljós rök mæli sem fyrr segir með að úrlausnir dómstóla séu aðgengilegar er þess þó að gæta að í dómum koma oft á tíðum fram viðkvæmar persónuupplýsingar. Með því að safna slíkum upplýsingum saman kerfisbundið í áratugi og veita aðgang að þeim með leitarvélum er hætt við að ekki sé fyllilega gætt að sjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs, en þau réttindi eru varin af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“

Þá er einnig lagt til að dómstólasýslunni verði heimilað að setja reglur um heimild til myndatöku og hljóðritunar í húsnæði héraðsdómstólanna, Landsréttar og Hæstaréttar. Það er lagt til með tilliti til hagsmuna málsaðila og vitna og vísað til ákvæða danskra réttarfarslaga en þar er óheimilt að taka myndir í dómshúsi nema með fengnu leyfi. Þar er einnig óheimilt að taka myndir af sakborningi, ákærða eða vitnum á leið til eða frá dómshúsi nema með samþykki þeirra.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×