75 ára gömul kona búsett í Minnesota var á dögunum handtekin grunuð um að hafa skotið barnabarn sitt.
Samkvæmt miðlum ytra var drengurinn í heimsókn hjá ömmu sinni. Þar fékk hann tebolla en milli þess að hann dreypti á teinu hvíldi hann bollann á tréborði. Það líkaði ömmu hans illa og bað hann að hætta.
Þegar drengurinn sinnti þeim boðum ekki hrifsaði konan bollann af honum, hellti teinu og sótti skammbyssu. Drengurinn fyllti bollann á ný og lagði hann aftur á borðið. Á amma hans þá að hafa hleypt af skoti sem hæfði hann nærri hægri nára. Hún hefur verið ákærð fyrir árásina.
Skaut barnabarn vegna tebolla
Jóhann Óli Eiðsson skrifar
