„Ég kem frá Norður-Svíþjóð, ég er vanur kuldanum,“ sagði Hamrén og vildi einbeita sér að fótboltanum. Sem var ágætur á köflum. Eftir erfiðan stundarfjórðung gáfu okkar menn í og áttu í fullu tré við Svisslendinga út fyrri hálfleikinn. Gylfi náði að ógna einu sinni með hörkuskoti en gestirnir voru alltaf líklegir á hinum endanum þótt Hannes hefði ekki mikið að gera í markinu.
„Fyrsta markið er svo mikilvægt. Ef við hefðum skorað þegar Gylfi átti skotið í fyrri hálfleik, maður veit aldrei,“ sagði Hamrén.
Yvon Mvogo varði hins vegar skot Gylfa með tilþrifum. Markvörðurinn 24 ára spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Sviss í kvöld og var öryggið uppmálað. Það var á hinum enda vallarins sem boltinn söng tvisvar í netinu um og upp úr miðjum seinni hálfleik.
„Mörk skapa orku, og taka orku. Við sáum það þegar við fengum frábært mark,“ sagði Hamrén um neglu Alfreðs Finnbogasonar sem gaf íslenska liðinu von síðustu tíu mínútur leiksins.
„Það er erfitt að skapa fleiri færi en við gerðum síðustu mínúturnar.“
„Mér líður illa fyrir hönd leikmannanna því þeir settu mikla orku í leikinn en uppskera svo lítið.“
Flestir voru á því að Hamrén væri ekki í öfundsverðu hlutverki þegar hann tók við landsliðinu. Fjórir fyrstu leikirnir gegn þremur af sterkustu þjóðum heimsins. Frammistaðan hefur þó verið upp á við. Frá 6-0 tapi í St. Gallen í 3-0 tap gegn Belgum á Laugardalsvelli og svo jafnteflið gegn Frökkum og með minnsta mun gegn Sviss í kvöld.
„Við erum í A-deild af því Ísland var svo hátt á styrkleikalistanum. Núna erum við í 36. sæti. Liðin sem við spilum við eru númer eitt og átta. Það er raunsætt að við yrðum í þriðja sæti. En við viljum ekki vera raunsæir, við vildum auðvitað vera áfram í A-deild. En eftir 9-0 tap í fyrstu leikjunum var ljóst að það yrði erfitt að komast hjá neðsta sætinu. Við vildum fá stig, við vildum vinna og ég trúði að við gætum það.“
En hvað finnst Hamrén um þróun liðsins frá því hann tók við?
„Byrjunin var stórslys. Bæði töpuðum við 6-0 og líka hvernig við töpuðum. Það var ekki boðlegt. Eftir 3-0 gáfumst við upp og það má aldrei sem lið,“ sagði Hamrén. Þótt andstæðingarnir væru erfiðir þá fái það á sálina að tapa endurtekið.
„Viðhorfinu hefur farið mjög fram og það skiptir miklu máli.“