Trúnaðarráð VR samþykkti í gærkvöldi kröfugerð fyrir komandi kjaraviðræður. Í kröfugerðinni kemur fram að félagið vilji að hlutur þeirra lægst launuðu verði réttur og að ráðstöfunartekjur allra félagsmanna VR verði auknar.
„Það sé því mikilvægt að bregðast við því misræmi sem sjá má í launaþróun þeirra hæst launuðu í þjóðfélaginu sem má meðal annars rekja til ákvörðunar kjararáðs árið 2016. VR telur mikilvægt að taka sérstakt tillit til stöðu þeirra sem hafa lægstu launin og leggur því til að samið verði um krónutöluhækkun,“ segir í tilkynningu frá VR.
Þess er jafnframt krafist að öll laun hækki um 42.000 1. janúar næstkomandi, 42.000 til viðbótar ári síðar og svo 41.000 árið 2021, þannig að lágmarkslaun verði orðin 425.000 krónur.
VR gerir jafnframt kröfu um að vinnuvikan verði stytt í 35 stundir hjá skrifstofu- og verslunarfólki án launaskerðingar, um átak í húsnæðismálum og stofnun óhagnaðardrifins húsnæðisfélags með fjármögnun tryggða í kjarasamningi og um að stjórnvöld komi að gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.
