Elísabet er reyndur hlaupari og hefur tekið þátt í mörgum ofurhlaupum í gegnum tíðina, þar á meðal Ultra Trail du Mt. Blanc og Ultra Trail Mt. Fuji. Þau hlaup eru þó töluvert styttri en það sem hún reynir við núna.
Á Facebook-síðu Elísabetar má fylgjast með gangi hlaupsins og hvernig henni miðar áfram. Elísabet lagði af stað seinni part fimmtudags á íslenskum tíma og í hádeginu í dag hafði hún hlaupið rúmlega 266 kílómetra á tæplega 70 klukkustundum. Hún lagði af stað frá sjöundu hvíldarstöð fyrir þremur klukkustundum síðan.
Líkt og áður sagði hefur Elísabet 150 klukkustundir til þess að ljúka hlaupinu. Í hlaupinu eru miklar hitabreytingar og mun Elísabet hlaupa í dagsbirtu og að næturlagi.
Þá þurfa hlauparar einnig að hlaupa yfir vötn, grófa stíga og gljúfur og rúmlega 2500 metra upphækkun er á fyrri hluta leiðarinnar. Leiðin er því gríðarlega erfið og hefur Elísabet ekki farið varhluta af því en á leið sinni að fjórðu hvíldarstöðinni þurfti hún að vaða straumharða á í tíu gráðu frosti og fékk hún aðhlynningu á hvíldarstöðinni þegar þangað var komið.


Hægt er að fylgjast með Elísabetu á Facebook-síðu hennar sem og á kortinu hér að neðan.