„Það er heimskulegt að setja alríkislögreglunni tímatakmarkanir. En það er betra að gefa fagmönnum sjö daga til að hafa uppi á staðreyndum en að engin rannsókn fari fram,“ skrifar Comey.
Tilnefning Kavanaugh til Hæstaréttar var samþykkt í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á föstudag. Einnig var ákveðið að alríkislögreglan myndi rannsaka ásakanirnar á hendur Kavanaugh. Rannsóknin má þó aðeins taka viku og verður „takmörkuð að umfangi“, að beiðni Bandaríkjaforseta.

„Ef sannleikur væri eina markmiðið, þá væri engin klukka og dómsmálanefndin hefði ekki beðið um rannsóknina eftir að hún samþykkti dómaraefnið. Þess í stað virðist sem markmið Repúblikana sé að geta sagt að rannsókn hafi verið gerð og hún hafi ekki fengið þá til að skipta um skoðun, á meðan Demókratar vonast eftir sönnunargögnum sem sýna fram á refsiverða hegðun frambjóðandans.“
Þá segir hann að þrátt fyrir að ferlið allt sé „verulega gallað“ sé alríkislögreglan til í slaginn.
Þrjár konur hafa sakað Brett Kavanaugh um kynferðisofbeldi. Greint var frá því í gær að rannsókn alríkislögreglunnar á ásökununum væri hafin en aðeins verður rætt við tvær kvennanna, Christine Blasey Ford og Deboruh Ramirez.
James Comey gegndi stöðu forstjóra alríkislögreglunnar þangað til Trump rak hann í maí í fyrra. Þeir hafa síðan eldað grátt silfur saman, ekki síst eftir útgáfu bókar þess fyrrnefnda í apríl síðastliðnum.