Thomas segist, að því er fram kemur í greinagerð verjanda hans, ekki eiga umrædda úlpu en úlpan er af gerðinni Quarts Nature og í stærð M. Ósennilegt sé að Thomas, sem er 188 sentímetrar á hæð og þrekvaxinn, myndi festa kaup á úlpu í þeirri stærð. Hann eigi aftur á móti samskonar úlpu en í stærðinni XL að því er segir í greinagerð verjanda.

Verjandi Möller óskar eftir því að sérfræðingur sem lagði mat á það hvar líklegt sé að Möller hafi komið líki Birnu fyrir í vatni gefi skýrslu og að tekin verði skýrsla af skipverja á Polar Nanoq og af vini Nikolaj Olsen, en Nikolaj var á sínum tíma handekinn vegna málsins en síðar látinn laus. Í greinagerð sinni segir verjandi Thomasar að lögregluaðgerð við handtöku Thomasar um borð í Polar Nanoq hafa verið ólögmæta og utan íslenskrar refsilögsögu og því sé um ólögmæta frelsissviptingu að ræða. Líkt og fyrir héraðsdómi segir verjandi Thomasar framburð Nikolaj Olsen vera ótrúverðugan.
Dagsetning aðalmeðferðar hefur ekki verið ákveðin en dómari metur nú kröfur ákæruvaldsins og verjanda og mun taka ákvörðun um hverjir verða kallaðir til skýrslutöku fyrir Landsrétti.