Telma meiddist í leik Stjörnunnar gegn FH í Kaplakrika á dögunum en Stjarnan vann öruggan 4-1 sigur í leiknum eftir að hafa lent undir.
Hún staðfesti svo á Instagram-síðu sinni í dag að hún væri með slitið krossband í þriðja skiptið og segir það mikið áfall.
„Eftir frábæra 3 mánuði þá ákvað krossbandið að gefa sig í þriðja sinn og ég er enn að reyna að átta mig á hvernig það gat gerst - ég bara trúi þessu ekki,” skrifaði Telma.
Hún átti afar gott tímabil með Stjörnunni. Hún skoraði átta mörk í tíu leikjum og var komin í landsliðshópinn, svo góð var frammistaðan en nú er hún komin á byrjunarreit á ný.
„Ég gerði allt rétt og hélt að þetta væri loksins komið en á nokkrum sekúndum er öllu kippt undan mér og ég komin aftur á byrjunarreit,” en færslu hennar í heild sinni má sjá hér að neðan.