Ölfusá skilgreind sem viðtaki
„Síðustu ár hafa bæjaryfirvöld hér verið að lemja hausnum í stein og reynt að fá Ölfusá skilgreinda sem síður viðkvæman viðtaka gagnvart stjórnvöldum og eftirlitsaðilum, þegar áin er skilgreind sem venjulegur viðtaki samkvæmt lögum og reglugerðum. Fráveituvatn sem leitt er út í síður viðkvæman viðtaka þarf einungis eins þreps hreinsun eða grófhreinsun eins og það er stundum kallað og átti samkvæmt áætlunum fyrri bæjarstjórnarmeirihluta að setja upp við Ölfusá. En aftur á móti áður en fráveituvatn er leitt út í venjulegan viðtaka eins og Ölfusáin er skilgreind, þá þarf tveggja þrepa hreinsun,“ segir Tómas Ellert Tómasson, bæjarfulltrú í meirihlutanum og formaður framkvæmda og veitustjórnar í Árborg.Með tveggja þrepa hreinsun er fráveituvatn fyrst grófhreinsað, svo fer það í gegnum það sem kallað er annað þrep en það þrep miðar að því að ná niður magni svifagna og lífræns efnis í fráveituvatninu áður en það er losað í viðtakann.

Tveggja þrepa hreinsistöð fyrir 1,2 milljarð króna
Nú hefur verið ákveðið að koma upp tveggja þrepa hreinsistöð við Ölfusá sem mun kosta 1,2 til 1,5 milljarða króna en áður var talið að þessi kostnaður yrði á bilinu 5 til 6 milljarðar króna.„Við gerum ráð fyrir því að framkvæmdir við tveggja þrepa hreinsistöðina muni hefjast næsta haust, þ.e. haustið 2019 og að stöðin muni verða tekin í notkun árið 2021. Samhliða byggingu hennar munum við vinna að framtíðarlausn á fráveitumálum við strandlengjuna og láta kanna hvort að beltasíun henti ekki einnig þar. Það er mikið fagnaðarefni fyrir bæjaryfirvöld og íbúa í Árborg að komin sé fram lausn á mesta fráveituvanda sveitarfélagsins á ásættanlegu verði. Komandi framkvæmdir eru þó engu að síður dýrar og það myndi hjálpa okkur og öðrum sveitarfélögum mikið sem standa í svipuðum sporum að ríkisstjórnin sem nú er við völd myndi hætta að rukka inn virðisaukaskatt af slíkum framkvæmdum líkt og gert var á árunum 1995 til 2008,“ segir Tómas Ellert.
„Ég skora hér með á ríkisstjórnina og alþingismenn að koma nú til móts við byggðir landsins í komandi fjárlögum og fella niður virðisaukaskatt af fráveituframkvæmdum, enda í hæsta móti óeðlilegt að ríkið sé að hafa tekjur af skólpi. Aðstoðið okkur frekar við að breyta þessu sulli í gull.“