Viðskipti innlent

Landsmenn eyddu tæplega 90 milljónum á dag í Costco

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ófáir lögðu leið sína í Costco í Kauptúni fyrstu mánuðina eftir opnun.
Ófáir lögðu leið sína í Costco í Kauptúni fyrstu mánuðina eftir opnun. VÍSIR/ANTON BRINK
Á 101 daga tímabili, frá opnun Costco á Íslandi þann 23. maí í fyrra og fram til 31. ágúst sama ár, vörðu Íslendingar að meðaltali 86 milljón krónum á dag í versluninni.

Heildarvelta Costco á þessu rúmlega þriggja mánaða tímabili var 8,65 milljarðar króna, samkvæmt ársreikningi Costco á Íslandi sem Viðskiptablaðið segist hafa undir höndum. Áreikningurinn nær frá 1. september 2016 fram til 31. ágúst 2017, en verslunin opnaði ekki í Kauptúni fyrr en undir lok maí 2017 sem fyrr segir.

Sé velta þessara þriggja mánaða framreiknuð í heilsársveltu mætti ætla að Costco hafi velt næstum 30 milljörðum króna fyrsta árið á Íslandi. Slíkar reiknikúnstir gera þó ekki ráð fyrir því að meðaltalsveltan kunni að hafa minnkað eftir því sem lengra leið frá opnuninni.

Í frétt VB er þessi áætlaða heildarvelta borin saman við smásölurisana á Íslandi, Festi og Haga. Fyrrnefnda félagið, sem rekur meðal annars Nóatún, Krónuna og Elko, velti tæplega 40 milljörðum króna á síðasta rekstrarári. Hagar, sem reka t.a.m. Bónus og Hagkaup, veltu 73 milljörðum.

Meðal annarra upplýsinga sem fram koma í ársreikningnum að sögn VB er að rekstrartap Costco hafi numið 635 milljónum króna á síðasta reikningsári og að alls hafi verið 372 milljón króna tap af rekstri Costco á Íslandi á rekstrarárinu. Það hafi þó verið viðbúið að sögn stjórnar Costco enda hafi opnun verslunarinnar fylgt mikill kostnaður.

Þá störfuðu 216 manns í fullu starfi hjá Costco á Íslandi og 181 í hlutastarfi. Eignir félagsins voru metnar á 11 milljarða króna, þar af voru bókfærð verð lóðar og fasteignar rúmlega 5 milljarða og áhöld og innréttingar voru metnar á rúmlega 800 milljónir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×