Handbolti

Boltinn inni hjá Björgvin í sögulegum VAR-dómi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var nálægt því að verja skotið.
Björgvin Páll Gústavsson var nálægt því að verja skotið. vísir/getty
Myndbandstækni var notuð í fyrsta sinn til að snúa við dómum í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta um helgina þegar að Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í GOG mættu Björgvini Páli Gústavssyni og félögum hans í Danmerkurmeistaraliði Skjern á heimavelli.

Enginn aukadómari kom í raun nálægt ákvörðuninni því dönsku dómararnir gerðu það sama og íslenskir körfuboltadómarar hafa gert um langa hríð og röltu út að hliðarlínu og horfðu á atvikið aftur.

Spænski leikmaðurinn Josef Pujol var sá fyrsti til að lenda í þessu VAR-i þegar að hann fékk rautt spjald fyrir að brjóta á norska landsliðsmanninum Bjarthe Myrhol í hraðaupphlaupi.

Það var svo á 48. mínútu sem að dómararnir vildu athuga hvort að boltinn væri inni þegar að Björgvin Páll Gústavsson, sem gekk í raðir Skjern frá Haukum í sumar, virtist ná að verja skot hornamannsins Emils Jakobsen.

Eftir að dómararnir voru búnir að skoða atvikið, reyndar án marklínutækni, dæmdu þeir mark og GOG jafnaði leikinn í 26-26. GOG fór með glæsilegan sigur á endanum, 35-34.

Óðinn Þór Ríkharðsson, sem var sjóðheitur á undirbúningstímabilinu og skoraði meðal annars ellefu mörk á móti Flensburg, setti fjögur mörk fyrir GOG en Björgvin Páll Gústavsson varði átta skot og var með 33 prósent hlutfallsvörslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×