Þjóðverjar gerðu markalaust jafntefli við heimsmeistara Frakka í fyrsta leik sínum í Þjóðadeild UEFA.
Leikurinn var sá fyrsti í A deild Þjóðadeildarinnar og voru tvö stórveldi í heimsfótboltanum að mætast. Byrjunarlið Frakka var það sama og í úrslitaleiknum á HM í júlí fyrir utan markvarðarstöðuna, Alphonse Areola kom inn fyrir Hugo Lloris.
Þrátt fyrir að niðurstaðan hafi verið markalaust jafntefli var þó nóg um marktækifæri í leiknum. Þjóðverjar, sem stóðu ekki undir væntingum á HM, áttu sex skot á markrammann og Frakkar fjögur.
Liðin eru því bæði komin með eitt stig í riðli 1 í A-deildinni þar sem þau eru ásamt Hollendingum. Frakkar mæta Hollendingum í næsta leik á sunnudag.
Fyrsti leikur heimsmeistaranna eftir HM markalaust jafntefli
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
