Fótbolti

Stórsigur í fyrsta keppnisleik Giggs

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Lærisveinar Ryan Giggs áttu mjög góðan leik í kvöld
Lærisveinar Ryan Giggs áttu mjög góðan leik í kvöld Vísir/Getty
Ryan Giggs byrjar vel með lið Wales í Þjóðadeildinni, hans menn unnu 4-1 sigur á Írum í kvöld. Lars Lagerbäck náði einnig í sigur í fyrsta leik.

Wales mætti Írum í grannaslag í fyrsta leik liðanna í nýrri Þjóðadeild UEFA. Þetta var einnig fyrsti keppnisleikur Giggs með velska landsliðið.

Tom Lawrence kom heimamönnum yfir strax á sjöttu mínútu leiksins eftir sendingu frá Joe Allen. Stærsta stjarna velska liðsins, Gareth Bale, bætti svo við öðru marki Wales á 18. mínútu og heimamenn með öll völd á vellinum.

Aaron Ramsey átti þriðja mark Wales áður en flautað var til hálfleiks. Fjórða markið var svo af dýrari gerðinni, Connor Roberts skoraði af yfir 20 metra færi eftir sendingu frá Bale.

Shaun Williams gerði sárabótamark fyrir Íra á 66. mínútu en það dugði ekki til, lokatölur 4-1.

Í Osló tóku heimamenn í norska landsliðinu á móti Kýpur. Stefan Johansen, miðjumaður Fulham, gerði bæði mörk Norðmanna í fyrri hálfleik í 2-0 sigrinum.

Lars Lagerbäck og hans menn voru með mikla yfirburði í leiknum, gestirnir frá Kýpur áttu aðeins þrjú skot í átt að marki.

Norðmenn mæta Búlgörum í næsta leik á sunnudaginn.

Úrslit kvöldsins í Þjóðadeildinni:

A-deild:

Þýskaland-Frakkland 0-0

B-deild:

Tékkland-Úkraína 1-2

Wales-Írland 4-1

C-deild:

Slóvenía-Búlgaría 1-2

Noregur-Kýpur 2-0

D-deild:

Kasakstan-Georgía 0-2

Armenía-Liechtenstein 2-1

Lettland-Andorra 0-0

Gíbraltar-Makedónía 0-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×