Elmar hefur lengi verið hluti af hópnum og stóð sig frábærlega á EM 2016 og í fyrstu leikjunum eftir Evrópumótið en datt síðan úr hópnum og fór ekki með á HM í Rússlandi í sumar.
Vesturbæingurinn, sem spilar í Tyrklandi, hefur eiginlega vakið meiri athygli utan vallar undanfarin misseri en hann hefur verið duglegur að opinbera sínar skoðanir á hinum og þesssum málefnum á Twitter.
Það eru ekkert alltaf allir sammála Elmari og hafa fjölmiðlar gert sér mat úr skoðunum hans. Hann bakkar sjaldnast með sínar skoðanir, stendur frekar fast á þeim og er klár í hvaða umræðu sem er á samfélagsmiðlinum.
Mest lesnu fréttirnar eru mjög oft þær fréttir sem fólk vælir mest yfir hvort þær séu í raun fréttir.
— Elmar Bjarnason (@ElmarBjarnason) August 24, 2018
Hvernig er kynjahlutfallið í sorphirðu? Hef ekki séð neina baráttu til að fá fleiri konur í það, þannig geri ráð fyrir að það sé nokkurn veginn jafnt.
— Elmar Bjarnason (@ElmarBjarnason) August 14, 2018
Eina sem ég bið DV um þegar þeir algjörlega óhlutdrægt fjalla um tístin mín er að setja betri mynd af mér við fréttina. Þessi sem er alltaf notuð er ekki my proudest moment. Jafnvel ekki að taka hlutina úr samhengi og skoða alla söguna. Annars bara flottir.
— Elmar Bjarnason (@ElmarBjarnason) July 28, 2018
Er jafnrétti að vera með jafn mikið af körlum og konum í öllum stöðum? Er ekki betra að hæfileikasti einstaklingurinn fái starfið? Kynjakvóti er ekki af hinu góða!!
— Elmar Bjarnason (@ElmarBjarnason) April 8, 2018
„Ég hef gaman að því að því að tala við fólk sem hefur misjafnar skoðanir. Ég hef gaman að því þegar að fólk er gjörsamlega á móti mér og reynir að komast til botns í því hvað er það sem skilur okkur að,“ segir Elmar og gefur lítið fyrir það að hann kallist umdeildur í dag.
„Sjálfum finnst mér ég ekki vera neitt umdeildur en flest allt í dag virðist vera umdeilt,“ segir hann.
Miðjumaðurinn knái er alltaf til taks fyrir landsliðið og einnig í góða umræðu á Twitter ef einhverjir eru ósammála eða jafnvel sammála hans skoðunum.
„Ég er alltaf tilbúinn að taka umræðuna og tek því fagnandi. Ég er alltaf klár innan sem utan vallar. Maður þarf að sýna smá lit,“ segir Theodór Elmar Bjarnason.