Skoðun

Heilbrigð skynsemi

Haukur Örn Birgisson skrifar
Fyrir skemmstu voru fluttar fréttir af því að rekstraraðili meðferðarheimilis á Norðurlandi hefði greitt arð úr félaginu upp á tæpar 42 milljónir króna „á síðustu árum“. Meðferðarheimilið er fyrir ungmenni og er greiðandi þjónustunnar hið opinbera. Þessi frétt var flutt í mörgum fjölmiðlum og flestir áttu þeir það sameiginlegt að gera hagnaðinn tortryggilegan og virtist markmiðið vera það að kasta rýrð á rekstur heimilisins.

„Tugmilljóna arður af meðferð fyrir börn“ var ein fyrirsögnin. Svolítið gildishlaðið, verð ég að segja. Svo þegar fréttin var lesin í heild sinni kom í ljós að arðgreiðslurnar í fyrirsögninni voru samtala síðastliðinna tíu ára þannig að þær höfðu verið um fjórar milljónir á ári. Það kallast nú seint ofurarðgreiðslur af rekstri fyrirtækis sem, vel á minnst, hefur bjargað fjölda ungmenna og fjölskyldum þeirra.

Það er merkilegt að hugsa til þess hversu neikvætt það er í huga margra að fyrirtæki á heilbrigðis- eða velferðarsviði skuli vera vel rekin. Slíkt er beinlínis litið hornauga og sumir fjölmiðlar ala á einhverri undarlegri andúð gagnvart slíkum rekstri, eins og þeir hafi sérstaka hagsmuni af niðurstöðunni. Það á að vera sjálfsagt mál að rekstur þessara fyrirtækja sé góður svo fleiri hafi áhuga á því að takast á við hann og bjóða upp á betri þjónustu en aðrir á sama sviði. Þannig verða til fleiri valkostir fyrir fólk.

Við eigum ekki að ætlast til þess að fólk á heilbrigðissviði gefi vinnuna sína, frekar en aðrir. Eða það fái einungis greidd þau laun sem ríkið er tilbúið að greiða því. Það er virkilega sorglegt að starfsfólk á heilbrigðissviði hafi engan annan viðsemjanda en hið opinbera þegar kemur að því að semja um kaup og kjör. Þessu fólki ber að hampa en ekki rægja það.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×