Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, lagði til á fundi skóla- og frístundaráðs 27. júní að að öll börn fengju fríar skólamáltíðir.
„Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir,“ sagði í tillögu Kolbrúnar sem felld var á fundi ráðsins í fyrradag.
Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata í ráðinu vitnuðu til sáttmála meirihluti Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um að frá áramótum 2021 skuli barnafjölskyldur mest greiða fæðisgjöld fyrir tvö börn, þvert á skólastig.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram sérstaka bókun um að gjaldfrjálsar skólamáltíðir væru hluti af stefnu Vinstri grænna um endurgjaldslausa menntun barna. „Ekki náðist sátt um að afnema gjaldtöku við skólamáltíðir í meirihlutasáttmálanum, þó vissulega hafi náðst sátt um að stíga ákveðin skref til að létta barnmörgum fjölskyldum lífið með margs konar aðgerðum.“
Í Fréttablaðinu í gær sagði frá því að Fjarðabyggð hefði ákveðið að lækka verð á skólamáltíðum í leikskólum og grunnskólum um þriðjung og að stefnt væri að því að máltíðirnar yrðu ókeypis. „Með því munum við létta undir með barnafjölskyldum ásamt því að standast 2. grein í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um jafnræði og bann við mismunun,“ segir í bókun sem gerð var þegar málið var samþykkt í bæjarráði.
Kolbrún Baldursdóttir kveðst ætla að halda málinu áfram á vettvangi borgarstjórnar í september. „Þá mun ég leggja til að verð á skólamáltíðum lækki um þriðjung,“ segir borgarfulltrúinn.