Henning var í fríi í Frakklandi ásamt kærustu hans, Laufeyju Kristjánsdóttur. Á sunnudaginn voru þau stödd í Gorges du Verdon, vinsælum ferðamannastað. Þar höfðu þau leigt sér hjólabát þar sem þau sigldu um á vatni í gljúfrinu sem þykir vera eitt fegursta gljúfur Evrópu.
„Við vorum að hoppa þarna allan morguninn og vorum alls ekki þau einu sem vorum að gera það,“ segir Laufey í samtali við Vísi. Hún segir að það hafi gengið vel framan af degi en þegar þau voru komin lengra inn í gljúfrið ákvað Henning að stinga sér einu sinni enn til sunds.
„Hann ætlaði að taka létt stökk, hann klifraði ekki hátt upp en fór akkúrat í það skiptið með hausinn á undan og þá tók bara botninn við honum. Sem betur var þetta sandur en ekki steinar en þetta var svakalegt högg,“ segir Laufey.
Tókst með herkjum að koma sér upp á hjólabátinn áður en hann datt út
Svo heppilega vildi til að stutt var í hjólabát þeirra og gat Henning komið sér upp á bátinn.
Laufey kallaði þá á hjálp og komu tveir menn sem voru í grennd við Laufeyju og Henning honum til bjargar. Hringdu þeir á starfsmenn á svæðinu sem gátu boðað sjúkrabíl á vettvang. Hjóluðu þeir svo hjólabátnum í land á meðan Laufey hélt Henning vakandi.
Líklegt að hraustleiki hans hafi komið sér vel
Þaðan var Henning fluttur á sjúkrahús þar sem hann var skoðaður í bak og fyrir. Ljóst er að Henning þarf að vera með spelku næstu tvo til þrjá mánuði. Brotin voru þó það stöðug að ekki þurfti að framkvæma aðgerð í bili. Líklegt er að hraustleiki Hennings hafi komið honum vel en Laufey segir að læknarnir hafi sagt að mildi sé að hann sé á lífi miðað við þau meiðsli sem hann hlaut.„Læknarnir töluðu um hvað hann væri rosalega heppinn. Það væru ekki margir sem þríbrotna þarna og lifa það af,“ segir Laufey sem nú er stödd með Henning í Frankfurt þar sem þau bíða eftir flugi til Íslands. Eru þau væntanleg til Íslands í kvöld og verður Henning lagður beint inn á Landspítalann við komu til landsins þar sem íslenskir læknar munu leggja mat á ástand hans.
Henning og Laufey á góðri stundu.
„Hann er náttúrulega verkjaður en er rosalega sterkur. Hann veit að þetta verður erfitt en hann er þannig að hann mun pottþétt koma til baka bara betri ef eitthvað er.“
Henning starfar sem crossfit-þjálfari hjá crossfit-stöðinni Granda101 í Reykjavík og ætla félagar hans þar að sýna honum stuðning með því að búa til sérstaka æfingu sem inniheldur margar af uppáhalds æfingum Hennings. Æfingin verður æfing dagsins hjá Granda101 á morgun og hvetja forráðamenn stöðvarinnar aðrar crossfitstöðvar til þess að gera slíkt hið sama, Henning til stuðnings.