Magnea er 15 ára og kynnist hinni 18 ára Stellu og úr verður ferðalag sem oft er erfitt að horfa á. Elín segir að hún hafi ekki verið viss í fyrstu hvernig hún ætlaði að tækla hlutverkið.
„Magnea á að vera ég og þú. Þessi klára stelpa með sterkt bakland sem samt leiðist út í heim fíknarinnar. Henni gengur vel í skólanum og hún á foreldra sem elska hana en hana vantar eitthvað. Hún er bara að reyna að finna sig eins og flestir 15 ára krakkar og er í raun óheppin að kynnast Stellu. Í rauninni er Magnea eðlileg og það var áhersla Baldvins að gera hana nánast að dóttur áhorfandans. Af því að þannig er raunveruleikinn – það getur hver sem er lent í neyslu,“ segir Elín.

Þetta er fyrsta stóra hlutverk Elínar í kvikmyndaheiminum en hún stefnir frekar að frama í tónlistinni þar sem hún hefur þegar haslað sér völl. Sumarslagarinn Make You Feel Better hefur fengið fínar viðtökur í sumar.
„Lagið fjallar um að vera ekki alveg í essinu sínu og vera að efast um sjálfan sig. Að segja bara fokk it, áfram veginn og kýldu á það sem þig langar að gera.“