Landspítali hefur fengið nauðsynleg leyfi frá Lyfjastofnun til að hefja framleiðslu á þeim lyfjum sem notuð verða í rannsóknum í jáeindaskanna spítalans.
Pétur H. Hannesson, yfirlæknir röntgendeildar, segir að verið sé að leggja síðustu hönd á frágang fyrir framleiðslu merkiefna og fyrir framkvæmd rannsókna.
Þá munu erlendir sérfræðingar verða starfsfólki til halds og trausts við upphaf notkunar búnaðarins. „Þess er skammt að bíða að fyrstu rannsóknir verði framkvæmdar á tækinu,“ segir Pétur.
Kári Stefánsson gaf Landspítala skannann fyrir hönd sjálfseignarstofnunarinnar Gjafar til þjóðar í ágúst 2015. Upphaflega var gert ráð fyrir því að tækið yrði tekið í notkun í september 2016.
