Einstök börn er stuðningsfélag barna með sjaldgæfa sjúkdóma og heilkenni. Helsta hlutverk félagsins er að gæta hagsmuna þessara barna og aðstandenda þeirra.
„Það er málefni sem okkur finnst skipta miklu máli, viljum glaðir styrkja og vekja athygli á,“ segja strákarnir. Þeir hafa skráð sig í 10 kílómetrana en útiloka alls ekki að vegalengdin geti lengst umtalsvert ef vel gengur að safna.
„Við erum skráðir í 10 kílómetra eins og er. Ef söfnunin okkar gengur vel þá gætum við hins vegar endað með að hlaupa heilt maraþon. Ef við fáum tvær milljónir hlaupum við 21 kílómetra en fjórar milljónir senda okkur í heilt maraþon.“
Er þetta ykkar fyrsta maraþon eða hafið þið hlaupið áður?
„Pétur og Sigurbjartur hafa hlaupið tíu kílómetra áður. Aron hefur hlaupið mest átta kílómetra þannig hann ætti að vera í mesta áhættuhópnum. En við munum peppa hver annan upp þar sem enginn okkar er í líkamlegu standi til að hlaupa maraþon.“

Aðspurðir hvort þeir séu byrjaðir að æfa segjast þeir ekki vera komnir mikið af stað – en metnaðurinn er þó töluverður og þeir eru komnir með gífurlega sterkan liðsauka í þjálfuninni fyrir maraþonið.
„Við erum bara nýbúnir að taka þessa ákvörðun þannig að við höfum ekki æft mikið en við erum að koma okkur af stað. Kári Steinn ætlar að kenna okkur einhver trix sem munu vonandi skila sér á stóra deginum.“
Það er þó ekki bara líkamleg þjálfun sem skiptir máli – það er líka andlegi þátturinn, sem þarf að sinna í langhlaupum. Það að hafa viljastyrkinn til að halda áfram að gera sama hlutinn aftur og aftur í lengri tíma og ýta sér alla leið yfir marklínuna getur verið þrautin þyngri – hvernig tæklið þið þetta strákar?
„Við verðum bara að vera tilbúnir að klífa alla þá veggi sem við rekumst á, við hættum ekki fyrr en við erum komnir í mark.“