Fulltrúar meirihlutans telja óttann ástæðulausan, það sé „nánast algild lýðræðisleg hefð að stjórnir, nefndir og ráð á vegum sveitarfélaga og ríkis endurspegli pólitíska niðurstöðu kosninga,“ eins og það er orðað í bókun þeirra í fundargerð bæjarráðsfundar í gær.
Samþykkt var einróma á fundi bæjarstjórnar þann 15. maí síðastliðnn að stofna félagið Herjólfur ohf. Við það tilefni var skipað í fimm manna stjórnarnefnd. Nýr meirihluti hefur nú boðað til hluthafafundar, sem fyrr segir, þar sem á dagskránni er meðal annars stjórnarkjör.
Trausti Hjaltason, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gerði „alvarlegar athugasemdir“ við boðun hluthafafundarins, á bæjarráðsfundinum í gær. Sagði hann fundinn hafa verið boðaðan með afar skömmum fyrirvara og án vitundar allra bæjarfulltrúa. Auk þess hefði það verið gert „án nokkurrar formlegrar opinberrar samþykktar“ eins og það er orðað í bókun fulltrúans.

Fulltrúar meirihlutans, Njáll Ragnarsson fyrir E-lista og Jóna Sigríður Guðmundsdóttir fyrir H-lista, segja bókun Hjalta vekja „nokkra furðu.“ Það tíðkist að stjórnir, nefndir og ráð á vegum sveitarfélaga og ríkis endurspegli pólitíska niðurstöðu kosninga - og nefna Njáll og Jóna Ríkisútvarpið og Isavia í því samhengi. „Skipað er í núverandi stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. í samræmi við þá hefð og skýtur því skökku við að þeir sem það gerðu mótmæli sama vinnulagi nú,“ bóka Njáll og Jóna.
Í bókun sinni gefa þau jafnframt lítið fyrir þá kvörtun Hjalta að til hluthafafundarins hafi verið boðað með ólögmætum hætti. „Til hluthafafundar var boðað með tæplega tveggja vikna fyrirvara og var það bæjarstjóri sem fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar heldur á hlutabréfinu, sem óskaði hluthafafundi,“ segja Jóna og Njáll. Áður en það var gert var hafi verið leitað til lögmanna bæjarins sem lögðu blessun sína yfir boðun fundarins.
„Að auki var fulltrúa D-lista gert grein fyrir áformum um boðun hluthafafundar með óformlegum hætti áður en til hans var boðað,“ segir í bókun fulltrúa meirihlutans.
Á fundinum kom jafnframt fram að afhending hins nýja Herjólfs dragist til 30. október næstkomandi. Ferjan kæmi því í fyrsta lagi til landsins í seinni hluta nóvember.