Innlent

Lögregla komin með aðgang að síma- og bankagögnum Jóhanns

Birgir Olgeirsson skrifar
Jóhann sást síðast á leið niður á strönd á Alicante að kvöldi til.
Jóhann sást síðast á leið niður á strönd á Alicante að kvöldi til. Vísir
Lögreglan á Vesturlandi hefur fengið heimild til að kanna síma- og bankagögn Jóhanns Gíslasonar sem hefur verið saknað í þrjár vikur á Spáni. Jóhann sást síðast á leið niður á strönd á Alicante að kvöldi 12. júlí síðastliðins.

Jón Haukur Hauksson, staðgengill lögreglustjórans á Vesturlandi, segir í samtali við Vísi að engar nýjar upplýsingar hafi borist um ferðir Jóhanns. Verið sé að hefja vinnu við að fara yfir síma- og bankagögn hans.

„Það er það síðasta sem við höfum frétt af ferðum hans, að hann hafi verið á leið niður á strönd. Það er það sem ættingi hafði eftir vitnum eftir að hafa farið til Spánar,“ segir Jón Haukur.

Jóhann er frá Akranesi og heyrir mál hans því undir lögregluna á Vesturlandi. Jón Ólason, yfirlögregluþjónn á Vesturlandi, sagði í samtali við Vísi að engin leit standi yfir í sjálfu sér og verður ekki farið fram á að lýst verði eftir Jóhanni á Spáni nema að rannsókn lögreglu gefi tilefni til þess.

Borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins er kunnugt um mál Jóhanns og aðstoðar fjölskyldu hans ásamt lögregluyfirvöldum hér á landi og á Spáni.


Tengdar fréttir

„Fólk má láta sig hverfa“

Lögreglan á Vesturlandi aflar gagna um ferðir Jóhanns sem hefur verið saknað í nítján daga á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×