Fréttablaðið sendi fyrirspurn um bifreiðakost forstjóra á tíu stærstu ríkisfyrirtækin, auk Landsbankans og Íslandsbanka sem eru í ríkiseigu. Vert er að taka fram að vegna afnotanna er greiddur hlunnindaskattur samkvæmt tekjumati ríkisskattstjóra.
Veglegust er bifreið Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar. Landsvirkjun, sem er stærsta ríkisfyrirtækið, keypti tvinnbifreið af gerðinni Audi Q7 e-tron í desember á 10,6 milljónir króna. Á sama tíma var eldri bifreið forstjóra af gerð Toyota Land Cruiser 100 og árgerð 2005 seld á rúmar fjórar milljónir. Kostnaður Landsvirkjunar við skiptin var því tæpar 6,6 milljónir.
Segir Landsvirkjun að við skipti á ökutækjum sé meðal annars horft til þess að draga úr orkunotkun og útblæstri. Þannig minnkaði útblástur koltvísýrings úr 292 g/km í 48 g/km við skiptin.

Þá hefur Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, einnig bifreið á vegum fyrirtækisins til umráða. Um er að ræða Toyota Avensis af árgerð 2010. Bifreiðin var keypt notuð í nóvember 2010 og var kaupverðið 4,4 milljónir. Ásett verð sambærilegra bifreiða er í dag í kringum um 1,2 milljónir.
Hvorki Ríkisútvarpið, Matís, Strætó, Rarik, Orkuveita Reykjavíkur né Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hafa útvegað bifreið fyrir sína æðstu stjórnendur. Hins vegar var greint frá því í Fréttablaðinu í vetur að ÁTVR hefði keypt notaðan, sjö ára gamlan Toyota Land Cruiser-jeppa á 9,8 milljónir króna til að nota í starfsemi sinni. Var hann ekki hugsaður fyrir neinn tiltekinn starfsmann fyrirtækisins.
Í svari frá Landsbankanum segir að bankinn sjái bankastjóra fyrir bifreið í samræmi við ákvæði í ráðningarsamningi sem kveður á um að bankastjóri geti óskað eftir því að hluti launanna felist í afnotum af bifreið. Útborguð laun lækki þar með sem nemur tekjumati ríkisskattstjóra fyrir bifreiðina. Sama gildir um bankastjóra Íslandsbanka sem hefur til afnota Volvo XC90 sem var keyptur í desember 2017.