Hvernig verður þetta samspil ykkar? Verður verslunarmannahelgarstemmingin í hávegum höfð? Jafnvel Þjóðhátíðarstemming?
„Er ekki kominn tími til? Ég hef nú samið mörg Þjóðhátíðarlögin en ekkert þeirra hefur hlotið náð fyrir Þjóðhátíðarnefnd. Sum hafa þótt full dónaleg eða eitthvað, ég veit ekki hvað það er. En þetta byrjaði nú hérna fyrir nokkrum árum. Valdimar var að spila hérna fyrir austan og ég endaði á sviði með sveitinni í góðum fíling og við tókum nokkur lög. Síðan þá höfum við gert dálítið af þessu – þegar við höfum verið á sama stað á sama tíma höfum við krullað okkur saman: þeir hafa verið að spila lög Prinsins og ég hef verið að gaula eða gutla lögin þeirra, þannig að við höfum mjög gaman af því að hittast og spila saman,“ segir Prinsinn og bætir við til útskýringar á gigginu:
„Þeir spila uppáhaldslögin mín, sem þeim finnst skemmtilegt að spila og ég bið þá að spila uppáhaldslögin sín – já eða uppáhaldslögin mín/þeirra, ef svo má segja.“
„Það þarf ekkert að æfa þessa menn, þeir eru svo miklir djöfulsins múltí-talentar. Þeir bara heyra hlutina einu sinni og þá kunna þeir það. Þetta er aðeins öðruvísi með mig, enda hef ég bara vanið mig á að semja eins einföld lög og ég mögulega get svo að það þurfi ekki að æfa þau og að hver sem er geti spilað þau. Þetta er mjög sniðug stefna – maður sleppur við allan þennan æfingatíma og það er líka erfitt að muna flókin lög. Maður er kannski í hljómsveit sem tekur sér pásu og svo kemur hún aftur saman og enginn man hvernig lögin eru. Það eru einhver fáránleg grip og sturlaðar kaflaskiptingar. Það er ekkert stuð. Það þurfa bara að vera þrjú grip, max fjögur.“
Þið hendið kannski í eitt svona sameiginlegt lag?
„Ja, ég meina, ef þú ferð fram á það þá gæti það alveg gerst. Ef við erum beðnir fallega þá er það alveg mögulegt. Við vorum baksviðs á Humarhátíð um daginn og byrjuðum þar á einu lagi – en svo þurftum við bara að fara á svið og náðum ekki að klára og gleymdum svo að koma að því aftur. En það gæti verið að við dustuðum rykið af demóum og hugmyndum og prófum að gera lag. Það væri ekki leiðinlegt.“

Prinsinn tekur lagið með Valdimar á föstudeginum og brunar svo austur á land þar sem Hæglætishátíðin hans er í rjúkandi gangi.