Ævar ætlar meðal annars að fagna þessum áfanga með því að gefa út enn fleiri bækur – hann gefur í miðjan ágúst út tvær nýjar bækur í Þín eigin-seríunni, en nú þegar eru komnar út fjórar bækur í þeim bálki, og þetta verða fimmta og sjötta bókin þar og tólfta og þrettánda bókin í heild sem Ævar hefur skrifað. Þessar bækur verða þó með öðru sniði en hinar bækur Þín eigin-seríunnar því að þessar nýju bækur verða léttlestrarbækur ætlaðar börnum á aldrinum 6 til 8 ára. Þar, líkt og í hinum bókunum, fær lesandinn að ráða hvað gerist í sögunni en það eru yfir 10 möguleikar á að enda hvora bók, sem þýðir að hægt er að lesa þær aftur og aftur.

Ævar segir að ástæðan fyrir því að hann sé að færa sig yfir í þennan lesendahóp sé sú að mikilvægt sé að það sé til nóg lesefni fyrir krakka á öllum aldri og að hann vilji leggja sitt á vogarskálarnar þegar að því verkefni kemur.
„Ég veit að Þín eigin-bækurnar sem koma út um jólin, og eru rosa mikill texti, eru vinsælar og tala vel til krakka sem hafa engan sérstakan áhuga á lestri vegna þess að allt í einu er lesturinn orðinn leikur. Mikill texti er samt ekki fyrir alla þannig að ég hugsaði með mér að það gæti verið gaman að kynna Þín eigin-bækurnar og gagnvirka lestrarformið fyrir krökkum sem eru að byrja að lesa.“
Það að skrifa „einfaldari“ bók fyrir þennan aldursflokk reyndist þó alls ekki eins einfalt og mætti kannski halda.
„Þetta er líklega það erfiðasta sem ég hef skrifað. Þegar ég hélt að bækurnar væru tilbúnar sendi ég þær á tvær vinkonur mínar sem vinna í grunnskólum með krökkum á þessum aldri og eru báðar sérfróðar í því sem þær eru að gera. Ég fékk til baka „já, þetta er flott – en þetta eru ekki léttlestrarbækur“. Ég er höfundur sem vill gjarnan nota mörg orð og þurfti þess vegna að temja mér alveg nýjan stíl. Ég endurskrifaði báðar bækurnar aftur og aftur þar til ég fann rétta tóninn, sem tókst að lokum. Það er meira en að segja það að skrifa bók sem talar við þennan aldurshóp, er á einföldu en góðu máli og á sama tíma skemmtileg. Ég lærði því helling af þessu.“
Einnig er á leiðinni frá Ævari önnur bók í Þín eigin-seríunni fyrir jólin eins og venjulega og einnig Þitt eigið leikrit í Þjóðleikhúsinu í janúar. Ef það er svo ekki nóg þá á Ævar von á sínu fyrsta barni hvað úr hverju, með unnustu sinni Védísi Kjartansdóttur.
„Þetta er okkar fyrsta jú og það á að koma bara á næstu dögum! Þetta er mjög spennandi tími, allt að gerast.“