Þetta er niðurstaða mannanafnanefndar sem greint er frá í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að Sæmundur hafi sent nefndinni erindi fyrir nokkrum árum þar sem hann óskaði eftir því að fá að bera gælunafn sitt „Sæmi“. Mannanafnanefnd hafi svo samþykkt beiðni hans og ákvað Sæmi því að senda henni annað erindi í vetur þar sem hann fór fram á að fá að taka upp millinafnið „Rokk.“
Í ljósi þess að Rokk uppfyllti öll skilyrði og reglur sem varða málhefð og beygingarreglur íslenskrar tungu sá mannanafnanefnd ekkert því til fyrirstöðu að Sæmundur fengi að heita Sæmi Rokk.
Í samtali við Morgunblaðið segist hinn 82 ára gamli Sæmi Rokk vera kampakátur með að fá beiðnir sínar samþykktar. Næsta mál á dagskrá verði að breyta nafni sínu formlega hjá Þjóðskrá og ganga frá öllu réttu pappírunum.