Í síðasta ársreikningi Bláa lónsins má sjá að rúmlega 985 þúsund manns fóru ofan í lónið í fyrra. Það gerir að meðaltali 2700 manns á dag. Ef gert er ráð fyrir óbreyttum fjölda gesta á þessu ári má því ætla að Bláa lónið hafi þurft að þvo á þriðja þúsund handklæða á hverjum einasta degi frá því í marsbyrjun.
Í ljósi þess að 148 dagar eru nú liðnir frá 1. mars, þegar fyrrnefndar breytingar tóku gildi, er því ekki óvarlegt að áætla að heildarfjöldi þveginna handklæði sé um 400 þúsund.

Aðspurður hvort að þessi handklæðanotkun sé ekki óumhverfisvæn, vegna þess þvottaefnis sem óneitanlega þarf að nota við þvottinn, segir Már að um sé að ræða fylgifisk þess reka að baðstað sem þennan. Fyrirtækið reyni engu að síður að hafa rekstur sinn umhverfisvænan eftir fremsta megni.
Sjá einnig: Milljón króna leyniherbergi í hóteli Bláa lónsins
Fólki sé einnig „að sjálfsögðu velkomið“ að koma með eigið handklæði í lónið að sögn Más - „en það er í sjálfu sér algjör óþarfi. Ef fólk vill hins vegar mæta með uppáhalds handklæðið sitt í Bláa lónið þá er það velkomið.“
Már segir að hinu nýja fyrirkomulagi sé ætlað að bæta „Bláa lónsins-upplifunina“ fyrir gesti. Það sé ekki ósvipað því sem þekkist í öðrum heilsulindum erlendis, þar sem gestir fá ýmis fríðindi við komuna. Þetta sé því ekki aðeins „markaðstrix,“ eins og blaðamaður ýjar að - enda gætu aukahlutir eins og handklæði og drykkur verið til þess fallnir að auðvelda fólki að réttlæta fyrir sér verðmiðann í lónið.

Már segir að það vilji oft gleymast að Bláa lónið sé í samkeppni við önnur „upplifunarsvæði í heiminum“ og í þeim samanburði þyki verðmiðinn ekki hár. Þessi svæði geti verið allt frá öðrum heilsulindum, sem eru víða í heiminum, til annarra óbeinni staðkvæmdarvara; eins og skemmtigarða, sólarstranda, þjóðgarða o.sfrv.
Jarðsjórinn og umhverfi Bláa lónsins sé þó einstakt á heimsvísu - og það dragi að rúmlega milljón gesti á ári.