Markaðsvirði rúmlega tveggja prósenta hlutar Traðarhyrnu, sem er í eigu einkafjárfesta, í Icelandair Group hefur lækkað um 40 prósent frá kaupunum í febrúar 2017. Samkvæmt ársreikningi fjárfesti Traðarhyrna fyrir 1,7 milljarða króna í flugfélaginu og er markaðsvirði bréfanna nú um einn milljarður króna. Félagið skuldaði tæplega 250 milljónir króna við kaupin og var eiginfjárhlutfallið 86 prósent á þeim tíma. Miðað við sömu skuldsetningu er eiginfjárhlutfallið nú um 80 prósent.
Eftir afkomuviðvörun Icelandair Group við upphaf árs í fyrra féllu bréfin um 25 prósent og Kvika banki setti saman hóp fjárfesta sem fjárfesti í flugfélaginu. Hlutabréfin höfðu þá lækkað um 60 prósent frá hátindi vorið 2016 fram að miðjum febrúar. Skömmu síðar var efnt til aðalfundar Icelandair Group og Ómar Benediktsson, hluthafi í Traðarhyrnu, kjörinn varaformaður stjórnar.
Sjá einnig: „Lenda hreinlega í ákveðnum vandræðum“ Hluthafar Traðarhyrnu eru fjórtán. Stærsti hluthafinn, með 20 prósent, er Traðarsteinn í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, og fyrrverandi eiginkonu hans. Fjórir hluthafar eiga 10,5 prósent. Um er að ræða NT í eigu fyrrnefnds Ómars, Snæból í eigu Finns Reyrs Stefánssonar og eiginkonu, Gana í eigu Tómasar Kristjánssonar, N4A í eigu Þóris Alberts Kristinssonar og Kvika banki. S9 í eigu Margrétar Ásgeirsdóttur, fyrrverandi eiginkonu Skúla Mogensen athafnamanns, á 5,6 prósent líkt og Q44 sem er í eigu fjölskyldu Magnúsar Kristinssonar.
Eiríkur Ingvar Þorgeirsson augnlæknir á 4,6 prósent í eigin nafni. Þrír hluthafar eiga 3,5 prósenta hlut: Þeir eru Konkrít í eigu Þorvaldar Gissurarsonar, forstjóra ÞG Verks, og eiginkonu hans, Langhlaup í eigu Óttars Þórarinssonar, fyrrverandi hluthafa í FoodCo, og fagfjárfestasjóðurinn Mylla undir stjórn Júpíters, sjóðsstýringar Kviku.