Ariana er bandarísk, fædd 26. júní 1993 og er því nýlega orðin 25 ára. Ferill hennar hófst árið 2008 þegar hún kom fram á söngleiknum 13 á Broadway, þá aðeins 15 ára. Eftir það fékk hún hlutverk í sjónvarpsþáttum og hefur léð ýmsum teiknimyndapersónum rödd sína.
Árið 2011 sneri hún sér að tónlistinni en fyrsta platan kom úr árið 2013 og nefndist Yours Truly. Eitt lagið, The Way, komst strax á topplista um allan heim. Ariana Grande hefur síðan verið öflugur tónlistarmaður og á marga unga aðdáendur um allan heim.

Foreldrar hennar fluttu frá New York þegar móðir hennar gekk með hana en þau skildu þegar hún var átta ára. Ariana stundaði nám í leiklistarskóla barna í Fort Lauderdale á Flórída og tók þátt í mörgum uppfærslum, má þar nefna Annie, Galdrakarlinn í Oz og Fríðu og dýrið. Þegar hún var átta ára kom hún fram um borð í skemmtiferðaskipi sem sigldi frá Flórída. Þar söng hún með hinum ýmsu sinfóníuhljómsveitum.
Nýjasta lag Ariönu heitir No tears left to cry og er það samið til að minnast hryðjuverkaárásarinnar í Manchester á síðasta ári. Það er meðal laga á nýju plötunni sem kemur út eftir mánuð. Ariana er með 121 milljón fylgjenda á Instagram og kemur hún þar á eftir Kim Kardashian og Beyoncé. Þær tvær síðarnefndu hafa undanfarið tekið upp hárstíl Ariönu en hún er þekkt fyrir að greiða hárið alltaf í hátt tagl. Ariana Grande verður á forsíðu tískutímaritsins ELLE í næsta mánuði.