Leikmennirnir fjórir eru Brynjar Þór Björnsson, Dagur Kár Jónsson, Danero Axel Thomas og Sigtryggur Arnar Björnsson. Sigtryggur Arnar var sá síðasti af þeim til að fara á milli liða þegar hann fékk sig lausann frá Tindastól og samdi við Grindvíkinga.
Dagur Kár, Danero og Arnar voru allir á topp tíu í framlagi íslenskra leikmanna í úrslitakeppninni á síðustu leiktíð og Brynjar Þór var fyrirliði fimmfaldra Íslandsmeistara KR.
Til viðbótar hafa líka þrír aðrir öflugir leikmenn farið á milli liða í deildinni. Miðherjinn Ragnar Ágúst Nathanaelsson fór frá Njarðvík í Val, framherjinn Ólafur Helgi Jónsson fór frá Þór Þorlákshöfn í Njarðvík og framherjinn Kristinn Marinósson fór frá ÍR í Hauka.
Vísir ætlar nú að skoða aðeins þessa fjóru stærstu sem hafa farið á milli félaga á þessu viðburðarríka sumri í íslenska körfuboltanum.

25 ára bakvörður
Gamla liðið: Tindastóll
Nýja liðið: Grindavík
- Hjálpaði Tindastól að slá Grindavík út úr úrslitakeppinni
Meðaltölin á öllu Íslandsmótinu 2017-18 (deild+úrslitak.)
19,4 stig í leik
4,0 fráköst í leik
3,3 stoðsendingar í leik
7. sæti í framlagi Íslendinga í deildinni (17,3 í leik)
10. sæti í framlagi Íslendinga í úrslitakeppninni (16,5 í leik)
Átti frábært fyrsta tímabil með Tindastóls og fáir bjuggust við öðru en að hann yrði áfram hjá liðinu. Ekkert varð hinsvegar að því og Arnar spilar með sínu þriðja liði á þremur árum. Fór auðveldlega úr því að vera besti maðurinn í einu lélegasta liði deildarinnar í að vera besti maðurinn í einu besta liði deildarinnar.

30 ára bakvörður
Gamla liðið: KR
Nýja liðið: Tindastóll
- Lyfti Íslandsbikarnum fimmta árið í röð eftir sigur á Tindastól í lokaúrslitum
Meðaltölin á öllu Íslandsmótinu 2017-18 (deild+úrslitak.)
12,5 stig í leik
3,0 fráköst í leik
2,5 stoðsendingar í leik
33. sæti í framlagi Íslendinga í deildinni (10,4 í leik)
19. sæti í framlagi Íslendinga í úrslitakeppninni (10,8 í leik)
Meiddist skömmu fyrir úrslitakeppni en kom til baka og fór fyrir frábærum endaspretti KR-liðsins. Skoraði 31 stig og 7 þrista í tveimur síðustu leikjum KR á móti Tindastól í úrslitaeinvíginu. Leikjhæsti og stigahæsti KR-ingur sögunnar.

32 ára framherji
Gamla liðið: ÍR
Nýja liðið: Tindastóll
- Átti frábært einvígi með ÍR á móti Tindastól í undanúrslitum úrslitakeppninnar
Meðaltölin á öllu Íslandsmótinu 2017-18 (deild+úrslitak.)
16,1 stig í leik
6,5 fráköst í leik
2,7 stoðsendingar í leik
16. sæti í framlagi Íslendinga í deildinni (14,7 í leik)
4. sæti í framlagi Íslendinga í úrslitakeppninni (21,0 í leik)
Átti frábært tímabil með ÍR-liðinu og sýndi síðan að hann gat tekið að sér stærra hlutverk í forföllum Ryan Taylor. Danero var með 28,3 stig, 13 fráköst og 34 framlagsstig að meðaltali í leikjunum þremur þar sem Ryan var í leikbanni. Stólarnir fengu að kynnast þessum Danero frá fyrstu hendi og buðu honum samning.

23 ára bakvörður
Gamla liðið: Grindavík
Nýja liðið: Stjarnan
- Snýr aftur til baka til uppeldisfélagsins síns
Meðaltölin á öllu Íslandsmótinu 2017-18 (deild+úrslitak.)
16,6 stig í leik
3,5 fráköst í leik
6,7 stoðsendingar í leik
14. sæti í framlagi Íslendinga í deildinni (14,7 í leik)
5. sæti í framlagi Íslendinga í úrslitakeppninni (19,7 í leik)
Kominn aftur heim í Garðabæinn eftir þriggja ára fjarveru í Bandaríkjunum og Grindavík. Fékk á sig mikla ábyrgð í Grindavíkurliðinu á síðasta tímabili og bætti sig sem leikmaður frá tímabilinu á undan. Orðinn mjög öflugur leikstjórnandi sem fær nú tækifæri til að stýra sóknarleiknum hjá sínu uppeldisfélagi.