Fráfarandi sveitarstjórn Dalabyggðar hefur kært niðurstöðu sveitarstjórnarkosninganna sem fram fóru þann 26. maí síðastliðinn. Þetta kemur fram í frétt á vefnum Búðardalur.is.
Kosningakæran er rakin til undirskriftarlista sem Eyjólfur Ingi Bjarnason, nýkjörinn oddviti sveitarstjórnar Dalabyggðar, afhenti þáverandi sveitarstjórn í maí. Nú setur fyrrverandi sveitarstjórn, ásamt Sveini Pálssyni sveitarstjóra, út á framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar og telur hana vera langt frá því verklagi sem fyrirskrifað er í reglugerð um undirskriftasafnanir af þessu tagi.
Sveinn sendi fyrirspurn til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þann 7. júní síðastliðinn varðandi íbúakosningu, undirskriftalista og sveitarstjórnarkosningarnar og var þess óskað að ráðuneytið rannsakaði aðdraganda og niðurstöðu kosninganna í Dalabyggð.
Ráðuneytið mun hafa svarað samdægurs og mun skoða framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar en lítur á síðari hluta erindis sveitarstjórnar sem kosningakæru og vísar því áfram til Dómsmálaráðuneytisins. Dómsmálaráðuneytið vísar erindinu áfram til Sýslumannsins á Vesturlandi til þóknanlegrar meðferðar með bréfi dagsettu 11.júní síðastliðinn.
Fimm af sjö fyrrverandi sveitarstjórnarmönnum Dalabyggðar samþykktu þetta.
