Listakonan Hrafnhildur Arnardóttir, sem er betur þekkt undir listamannsnafni sínu Shoplifter, verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist á næsta ári.
Greint var frá þessu í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld og sagði Shoplifter í viðtali við Erlu Björgu Gunnarsdóttur, fréttamann, að það væri dásamleg tilfinning að hafa verið valin sem fulltrúi á tvíæringnum sem er ein virtasta myndlistarhátíð í heimi.
Shoplifter hefur búið og starfað sem listamaður í New York í fjöldamörg ár en sýning hennar í Listasafni Íslands í fyrra þar sem hár og gervihár var í aðalhlutverki vakti mikla athygli.
Alls bárust 17 tillögur frá listamönnum og sýningarstjórum til Kynningamiðstöðvar íslenskrar myndlistar um hver ætti að vera fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum á næsta ári. Var Shoplifter valin úr þeim hópi en sýningarstjóri hennar er Birta Guðjónsdóttir.