Greint var fyrst frá gæsluvarðhaldinu á vef Ríkisútvarpsins en Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að árásin átti sér stað á göngustíg milli Engjateigs og Sigtúns um klukkan tvö í gærdag.
Sá sem varð fyrir árásinni er á fertugsaldri en Guðmundur Páll segir hann hafa verið á gangi með hund sinn þegar árásarmaðurinn kom að honum á reiðhjóli. Árásarmaðurinn veittist að vegfarandanum með höggum og spörkum og barði hann síðan með reiðhjólinu.

Guðmundur Páll segir lögregluna telja ræningjann hafa verið í annarlegu ástandi en hann á nokkur brot að baki.
Hann segir afstöðu árásarmannsins til brotsins ekki liggja fyrir, það er hvort hann neitar eða gengst við sök, en Guðmundur tekur fram að lögreglan hafi nokkuð sterkar sannanir gegn honum. Þar á meðal frásagnir vitna og þá staðreynd að árásarmaðurinn var með síma brotaþolans á sér þegar hann var handtekinn. Þá megi ætla að blóð hafi verið á árásarmanninum sem tilheyrir brotaþolanum.