Stjórnvöld í Mexíkó hafa ákveðið að leggja innflutningstolla á viskí, osta, stál og svínakjöt frá Bandaríkjunum. Tollarnir eru svar Mexíkó við ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að setja háa verndartolla á innflutt stál og ál frá helstu bandalagsríkjum sínum.
Sérfræðingar hafa varað við viðskiptastríði í kjölfar ákvörðunar Trump. Leiðtogar Evrópu og Kanada hafa fordæmt hana og hótað að svara í sömu mynt. Í tilfelli Mexíkó og Kanada hefur Trump reynt að nota tollana sem skiptimynt í viðræðum ríkjanna þriggja um framtíð NAFTA-fríverslunarsamningsins.
Mexíkósku tollunum er ætlað að bíta í heimaríkjunum nokkurra þingmanna repúblikana í Bandaríkjunum eins og Kentucky og Iowa fyrir þingkosningar sem fara fram í nóvember.
Mexíkó er stærsti innflytjandi bandarísks svínakjöts, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC. Nú mun það bera 20% innflutningstoll. Þá ætla Mexíkóar að leggja 25% toll á ýmsar bandarískar stálvörur og 20-25% toll á ákveðna osta og viskítegundir.
