En hvaða meirihlutar eru nú mögulegir? 23 borgarfulltrúar voru kosnir í borgarstjórn í gær og því þarf a.m.k. 12 fulltrúa til að mynda meirihluta. Sjálfstæðisflokkur er stærstur með 8, Samfylkingin er næst með 7, Viðreisn og Píratar eru með 2 hvor og þá eru Miðflokkurinn, Vinstri græn, Sósíalistaflokkurinn og Flokkur fólksins allir með einn.
Nokkrir flokkar hafa nú þegar útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkin þar á meðal Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, og Sanna Magdalena Mörtudóttir, oddviti Sósíalistaflokksins, að því er fram kom í frétt Mbl frá því í dag. Þá hefur Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, einnig útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokkinn og því detta allir meirihlutar þessara flokka út af borðinu.
Eins og áður hefur komið fram er Viðreisn í lykilstöðu þar eð flokkurinn gæti myndað meirihluta til bæði vinstri og hægri. Þá sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, í hádegisfréttum Stöðvar 2 í dag að flokkurinn útilokaði ekki samstarf við neinn.

CDFM: Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins, Miðflokkurinn
CDFV: Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins, Vinstri græn
CDMV: Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur, Vinstri græn
CFPS: Viðreisn, Flokkur fólksins, Píratar, Samfylkingin
CJPS: Viðreisn, Sósíalistaflokkurinn, Píratar, Samfylkingin
CMPS: Viðreisn, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin
CPSV: Viðreisn, Píratar, Samfylkingin, Vinstri græn
Þá gæti einhverjum hugnast að mynda meirihluta með fleiri en fjórum flokkum og þar kæmu eins-manns-flokkarnir, Sósíalistar, Vinstri græn, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn, líklega sterkir inn. Nú verður því forvitnilegt að sjá hvernig flokkarnir semja en ljóst er boltinn er hjá Lóu og Pawel í Viðreisn.