Framsóknarflokkur, L-listinn og Samfylking, sem gerðu með sér samning um meirihlutasamstarf á síðasta kjörtímabili, hafa fundað saman á hverjum degi frá sveitarstjórnarkosningum. Flokkarnir hafa gefið sér tiltekinn tímaramma fyrir viðræðurnar og ætla að láta á það reyna hvort flokkarnir nái ekki saman fyrir mánaðamót.
Að sögn Guðmundar Baldvins Guðmundssonar, oddvita Framsóknarflokksins á Akureyri, ganga viðræðurnar vel. Enginn málefnalegur ágreiningur hafi komið upp hjá flokkunum og Guðmundur er bjartsýnn að flokkarnir nái saman, enn sem komið er.
„Viðræðurnar ganga vel. Við gáfum okkur tíma fram að mánaðamótum og það hefur ekkert gerst sem hefur hleypt þessu í bál og brand, eins og maður segir,“ segir Guðmundur.
Hefur komið til tals að bjóða öðrum flokkum með í viðræðurnar til að styrkja meirihlutann, eins og til dæmis Vinstri hreyfingunni-grænu framboði sem þið hafið unnið vel með á síðasta kjörtímabili?
„Það er margt rætt skulum við segja.“

