Stýrivextir eða vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða áfram 4,25% samkvæmt ákvörðun peningamálastefnunefndar Seðlabankans í dag. Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans eru horfur á að hagvöxtur verði aðeins minni í ár en í fyrra. Fer þar saman hægari vöxtur útflutnings og minni vöxtur innlendrar eftirspurnar.
Bankinn telur að áfram muni hægja á hagvexti á næstu tveimur árum. Í Peningamálum kemur fram að hægt hafi á útflutningi þjónustu í fyrra sem þó hafi aukist um 8 prósent. Á þessu ári er gert ráð fyrir að áfram dragi úr vexti ferðaþjónustu en á móti spáir Seðlabankinn að útflutningur sjávarafurða aukist um fjögur prósent.

