Skoðun

Meira og virkara lýðræði: Betri Reykjavík, betra samfélag

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson skrifar
Gangir þú um Hljómskálagarðinn blasir við þér, rétt við sjálfan skálann, skilti þar sem kynnt er bygging nýrrar vaðlaugar. Vaðlaugin er eitt þeirra fjölmörgu góðu verkefna sem komu út úr þátttökufjárhagsáætlunarkerfinu „Hverfið mitt“ þetta árið. Í nóvember síðastliðnum voru kosnar til framkvæmda 76 tillögur og er fjöldi þeirra nú þegar vel á veg kominn.

Borgararnir taki þátt í fjárhagsgerð

„Þátttökufjárhagsáætlanagerð“ er sennilega bæði óþjált og nýtt orð fyrir flesta, en hugmyndin sem býr þar að baki er sú að ákvarðanir um hvernig fé úr sameiginlegum sjóðum er varið til nýframkvæmda og viðhalds verði betri ef almenningur tekur beinan þátt í ákvörðunartökuferlinu. Í stað þess að ákvarðanirnar séu teknar miðlægt af fáum er valdinu dreift og opnað borgarbúum.

Verkefninu var hleypt af stokkunum árið 2010 og hefur verið í sífelldri þróun og mótun og verður betra og skilvirkara ár frá ári. Samhliða því hefur þátttaka borgarbúa aukist jafnt og þétt. Nú á að efla verkefnið enn frekar með því að auka samvinnu starfsmanna borgarinnar með þeim sem senda inn hugmyndir, þróa þær betur og laga að því lagaumhverfi sem borgin er bundin af.

Styrkjum lýðræðið

Fólk er hins vegar flest enn óvant því að taka beinan þátt í ákvarðanatöku. Við þurfum því að finna fleiri og fjölbreyttari leiðir fyrir fólk til þess að taka þátt og til þess að láta rödd sína heyrast. Við þurfum að styrkja beint lýðræði og skapa fleiri vettvanga þar sem fólk getur tekið þátt í ferlinu. Þannig mætti t.d. nota rökræðukannanir eða íbúaþing til þess að komast að niðurstöðum í flóknum málum og formgera mætti með betri hætti hvernig safna má undirskriftum til þess að hafa aðkomu að einstökum málum í borgarkerfinu.

Við verðum stöðugt að leita leiða til þess að auka og styrkja lýðræðislega ferla. Við þurfum að huga að því að mjög misjafnlega er gefið í möguleikum fólks til þátttöku, hvort sem það er við kosningu á vefnum eða á borgarafundum eða öðrum samkomum. Langir vinnudagar, aðgengistakmarkanir, hvort sem þær felast í tungumálahindrunum, aðgengi fyrir fatlaða eða takmarkaðrar tæknikunnáttu er eitthvað sem við verðum alltaf að huga að.

Stjórnkerfi fyrir samfélagið

Við þurfum að stefna frá þeirra ásýnd að stjórnkerfið sé svartur kassi frá hverjum flæða ákvarðanir og byggja hér þess í stað stjórnkerfi sem byggist á virku samtali, þar sem raddir okkar allra fá að heyrast. „Hverfið mitt“ hefur verið liður í þeirri vegferð, en við þurfum að nýta okkur fleiri aðferðir, sem bæði hafa fengið reynslu hérlendis og erlendis, til þess að borgarfulltrúar geta skilað valdinu aftur til þeirra sem valdið eiga. Þannig byggjum við upp stjórnkerfi sem endurspeglar samfélagið sem það á að þjóna.



Höfundur situr í Stjórnkerfis- og lýðræðisráði Reykjavíkurborgar og skipar 6. sæti á framboðslista VG fyrir borgarstjórnarkosningarnar.





Skoðun

Sjá meira


×