Dagur, sem uppalinn er í Garðabænum, hefur spilað fyrir Grindavík síðustu tvö tímabil í Domino's deild karla. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við Suðurnesjafélagið síðasta sumar og var því samningsbundinn Grindavík. Í samninginum var uppsagnarákvæði sem gat tekið gildi 1. maí.
„Við viljum þó lýsa yfir vonbrigðum okkar með þessa ákvörðun hans sem og vinnubrögðum Stjörnumanna í þessu máli [...] Staða félagsins í þessu máli er mjög erfið og réttur félagsins nánast enginn. Þar spila inn í reglur varðandi félagsskipti sem lítið er hægt að gera við,“ segir í tilkynningu Grindvíkinga.
Dagur á að hafa tilkynnt forráðamönnum Grindavíkur að hann ætlaði að klára samning sinn með þeim gulklæddu og var hann því inni í öllum plönum fyrir næsta tímabil og „kom þessi ákvörðun hans því eins og köld tuska framan í KKD Grindavíkur.“
Grindavík vildi þó óska leikmanninum alls hins besta og sýnir því fullan skilning að hann vilji halda aftur til síns uppeldisfélags. Yfirlýsingu KKD Grindavíkur má sjá hér að neðan.