Embætti héraðssaksóknara staðfesti við Vísi að ákæra fyrir kynferðisbrot hefði verið gefin út og málið sent Héraðsdómi Norðurlands eystra á mánudaginn. Ekki fengust upplýsingar um hvort ákært væri fyrir nauðgun eða annars konar kynferðisbrot. Ákæran hefur ekki verið birt en búið er að tilkynna hana bæði manninum og brotaþolanum.
Móðir iðkanda ákærð fyrir líflátshótun
Þjálfarinn er ákærður fyrir að hafa brotið gegn konu með þroskaskerðingu en konan var iðkandi hjá honum á þeim tíma.Móðir annars iðkanda sem er einnig þroskaskert hefur verið ákærð fyrir líflátshótun gegn þjálfaranum, henni var birt ákæran í síðustu viku. Þegar konan varð þess áskynja í ágúst síðastliðnum að maðurinn var að reyna að setja sig í samband við dóttur hennar brást hún ókvæða við og þusti inn á gólf vinnustaðar hans og hafði í hótunum við hann í vitna viðurvist.
Móðirin lýsti furðu og vonbrigðum með að hún væri ákærð á undan manninum sem hefur að hennar sögn gengið laus og haldið uppteknum hætti allt frá því að grunur vaknaði um brot árið 2014.
„Þetta eru veruleg vonbrigði og ég var bara slegin þegar mér var tilkynnt um ákæruna,“ sagði móðirin um ákæruna.
Útvegaði konunum húsnæði
Maðurinn mun hafa stofnað til náinna vináttusambanda við kvenkyns iðkendur í íþróttinni og nýtt sér þær kynferðislega í ljósi þess að hann var í yfirburðastöðu gagnvart þeim. Hann hefur sem dæmi útvegað konunum húsnæði og með því tryggt aðgang sinn að þeim.Maðurinn hefur verið þjálfari á Akureyri í mörg ár og hann er grunaður um að hafa brotið gegn fleiri iðkendum sínum. Hann hefur verið áminntur fyrir óviðeigandi hegðun gegn iðkanda sínum á móti og fékk réttargæslumaður fatlaðra á Akureyri málið inn á sitt borð.